Huginn 3-1 Leiknir F
Huginn og Leiknir F. mættust á Seyðisfjarðarvelli laugardaginn 29.júní.
Liðin hafa bæði byrjað tímabilið nokkuð vel en Leiknir vann fjóra fyrstu leiki sína en höfðu tapað tveimur í röð þegar þeir heimsóttu Seyðisfjörð. Huginn byrjaði deildina á tapi en unnu svo fimm leiki í röð.
Atli Gunnar stóð milli stanganna, Gauti og Ingimar voru í stöðum bakvarða en Kristján og Stefan miðverðir. Á miðju voru Rúnar, Nik og Darko og Einar Óli, Friðjón og Marko voru fremstir.
Á bekknum voru Ívar, Bragi, Gunnar, Stefán, Raggi, Binni og Hörður Bragi.
Eins og ávallt þegar þessi lið mætast er eftirvæntingin mikil enda vill hvorugt liðið tapa fyrir hinu. Enn meira var undir í þessum leik enda um stór afmælishelgi að ræða, íþróttafélagið Huginn að fagna 100 ára afmæli sínu. Í tilefni af því voru margir gestir í bænum yfir helgina og því var við því að búast að áhorfendur yrðu með fleira móti en enginn átti þó von á því að 450 manns myndu koma á völlinn en sú tala mun vera aðsóknarmet á Seyðisfjarðarvelli, eftir því sem næst verður komist.
Huginn byrjaði leikinn af krafti og höfðu frumkvæðið í fyrri hálfleik. Það var ljóst að leikmenn liðsins ætluðu að tryggja sigur á stórafmælinu. Liðið spilaði frábæran fótbolta frá byrjun og náðu forystunni á 5.mínútu eftir glæsilega sókn. Boltinn barst frá vinstri helmingi vallarins inn á miðjuna og yfir á hægri kantinn þar sem Einar Óli fékk boltann, lagði hann fyrir sig og setti hann örugglega í markið út við stöngina fjær.
Huginn var með undirtökin í byrjun leiks, sóttu stíft og fengu nokkrar hornspyrnur. Úr einni þeirra komust Leiknismenn í skyndisókn en Nik stöðvaði hana í fæðingu og uppskar gult spjald.
Darko náði sér í gult spjald fyrir brot á 36.mínútu en meiddist skömmu síðar og þurfti skiptingu. Bragi kom inn á í hans stað.
Á 41.mínútu jók Huginn forystuna þegar fyrirgjöf frá hægri barst til Einars Óla á fjærstöng sem kom boltanum í netið áður en hann skall á stönginni.
Staðan var 2-0 eftir flottan fyrri hálfleik þar sem Huginsmenn höfðu yfirhöndina og sýndu á köflum frábært spil.
Seinni hálfleikurinn var ekki síðri en sá fyrri, spilað var á háu tempói og bæði lið sóttu af krafti. Baráttan sem bæði lið sýndu var til marks um mikilvægi sigurs í þessum leik.
Á 63.mínútu fékk Ingimar gult spjald fyrir brot en skömmu síðar kom Ívar inná í vörnina fyrir Stefan.
Leikurinn var í járnum þar sem Leiknir reyndu að minnka muninn en Huginsmenn urðu varkárari í aðgerðum sínum. Þá harðnaði baráttan enn frekar.
Á 81.mínútu komst Almar Daði í dauðafæri eftir að hafa komist framhjá Ívari og hann skoraði framhjá Atla í markinu. Staðan orðin 2-1 og hörkuspenna framundan.
Leiknismenn héldu skömmu síðar að þeir væru búnir að jafna en sóknarmaður þeirra hafði komið við boltann með höndinni og dómarinn dæmdi því aukaspyrnu.
Á 88.mínútu átti Bragi gullfallega sendingu innfyrir vörn Leiknis þar sem Friðjón komst einn gegn markverði þeirra, lék á hann og lagði boltann í tómt netið. Staðan orðin 3-1 og úrslitin því sem næst ráðin.
Einni mínútu síðar fékk varnarmaður Leiknis að líta reisupassann fyrir ljótt brot áður en annar varnarmaður þeirra fékk gult fyrir groddaralegt brot og svekkelsi gestanna leyndi sér ekki.
Heimamenn fögnuðu aftur á móti verðskulduðum sigri í gríðarlega fjörugum og skemmtilegum nágrannaslag. Ekki leiðinlegt að sigra sterka nágranna okkar á sjálfri 100 ára afmælishelginni.
Eftir helgina situr Huginn í 2.sæti deildarinnar með 18 stig eins og Fjarðabyggð sem hafa þó leikið einum leik meira. Í 3.sæti sitja ÍH með 15 stig, Leiknir í því fjórða með 12 stig og Víðismenn í því fimmta, einnig með 12 stig en eiga leik til góða.