Magni 1-2 Huginn og nýir leikmenn
Huginn mætti Magna á Grenivík síðastliðinn laugardag.
Atli Gunnar stóð í markinu með þá Ingimar, Kristján, Ívar og Hörð Braga fyrir framan sig.
Hörður Bragi tók stöðu vinstri bakvarðar í fjarveru Gauta sem er erlendis í nokkrar vikur.
Rúnar, Nik og Friðjón stóðu vaktina á miðjunni, Stefán á hægri kanti og Marko á þeim vinstri. Fremstur var Einar Óli.
Á bekknum voru Stefan, Darko, Gunni og Binni.
Huginsmenn léku í varabúningum sínum á Grenivík. (mynd: Ingimar Jóhannsson)
Huginn komst yfir á 23.mínútu með marki frá Nik, en áður höfðu Stefán og Friðjón náð sér í áminningar.
Staðan var 0-1 í hálfleik og útlitið ágætt.
Í byrjun síðari hálfleiks, á 47.mínútu, fékk Ívar ódýrt gult spjald fyrir brot.
Á 51.mínútu var forystan orðin 2 mörk. Einar Óli skoraði þá sitt sjöunda mark það sem af er sumri, staðan 0-2.
Einungis 6 mínútum síðar minnkuðu heimamenn muninn þegar Hreggviður skoraði sitt fimmta mark í deildinni.
Staðan orðin 1-2 og spennandi leikur framundan.
Marko nældi sér skömmu síðar í áminningu og á 80.mínútu var Ívari vikið af velli þegar hann fékk aðra ódýra áminningu.
Lokatölur voru 1-2 og Huginsmenn náðu sér þarna í frábæran útisigur á Grenivík!
Eftir 10 leiki trónir Huginn enn á toppi 3.deildar með 27 stig, þrem stigum meira en Fjarðabyggð. Þar á eftir koma ÍH með 21 stig.
Í 4.sæti eru Víðir með 15 stig eftir 9 leiki.
Nú er félagaskiptaglugginn opinn og nú þegar hafa tveir leikmenn fengið félagaskipti til Hugins.
Marteinn Gauti Kárason kemur á láni frá Hetti en hann lék 14 leiki með liðinu í fyrra og skoraði 1 mark.
Marteinn er fljótur og knár kantmaður sem eykur breiddina í sóknarlínu liðsins enn frekar.
Þá hefur Vilhjálmur Rúnarsson fengið félagaskipti, einnig frá Hetti. Vilhjálmur er Reykvískur piltur sem kom til Hattar fyrir tímabilið en hefur fengið afar takmörkuð tækifæri.
Hann er örfættur og sterkur leikmaður sem getur leikið á vinstri kanti sem í vinstri bakvarðastöðunni. Það kemur sér vel, ekki síst í fjarveru Gauta Skúlasonar sem hefur hingað til spilað vinstri bakvörðinn en er staddur erlendis til nokkurra vikna.
Fróðlegt verður að sjá hvort fleiri leikmenn bætist í leikmannahóp Hugins fyrir lok gluggans en við bjóðum Martein og Villa velkomna til Hugins og óskum þeim vitanlega góðs gengis með liðinu.
Um helgina koma Huginsmenn í suðurferð þar sem leikið verður gegn Kára á Akranesi á föstudagskvöldið áður en Kaplakriki verður heimsóttur á sunnudaginn þar sem ÍH tekur á móti liðinu.
fös. 19.júlí kl.20:00 : Kári – Huginn : Norðurálsvöllurinn
sun. 21.júlí kl.14:00 : ÍH – Huginn : Kaplakrikavöllur
Við hvetjum að sjálfsögðu alla Seyðfirðinga og aðra stuðningsmenn Hugins til að fjölmenna á leikina og styðja þá til sigurs!
ÁFRAM HUGINN!