Sarpur

Færslusafn höfundar

Leikir við Einherja og Augnablik.

Föstudaginn 13.júlí fór fram leikur Einherja og Hugins á Vopnafirði.  Leiknum lauk með 3-1 sigri heimamanna þar sem Friðjón skoraði mark Hugins.

Laugardaginn 21.júlí lék Huginn svo við Augnablik í Kópavogi. Fyrir þann leik voru nokkur skörð  höggvin í lið okkar. Nik meiddist í leiknum við Einherja og verður frá í nokkrar vikur. Þá hafa fleiri menn glímt við meiðsl og veikindi undanfarið. Að síðustu ákváðu nágrannar okkar í Hetti að kalla Brynjar Árnason til baka úr láni. Skiljanleg ákvörðun þar sem Brynjar hefur spilað vel á miðjunni í sumar en leikbanna- og meiðsla vandræði eru kveikjan að ákvörðun Hattar.
Leiknum gegn Augnabliki lauk með 3-0 tapi.

Næsti leikur er þann 28.júlí. Þá koma KH menn í heimsókn á Seyðisfjörð. Huginn situr þrátt fyrir þessi tvö töp, enn á toppi D-riðils, og eru allir Huginsmenn sem og konur hvött til að flykkjast á völlinn um næstu helgi!

Áfram Huginn!

Flokkar:Leikir

Umfjöllun: Huginn 7 – 1 Björninn

Byrjunarliðið
Atli
Jörgen  Kiddi    Matt   Gauti
Rúnar
Binni Á                 Nik
Ingó                                     Marko
Friddi

Bekkur
Biggi-Gunni-Stebbi-Raggi-Binni S

Byrjuðum leikinn af miklum krafti og fengum dauðafæri eftir u.þ.b 90 sek þegar Marko skaut yfir af stuttu færi. Hann var fljótur að bæta það upp með glæsilegu marki á 3 mín eftir góðan undirbúning Binna Á. Við sóttum nokkuð stíft en vorum þó heppnir á 22 mín þegar Gauti bjargaði á línu og fór boltinn í stöngina og út. Loks á 35 mín náðum við að skora aftur og var það Ingó sem skoraði en boltinn hafði þó viðkomu í varnarmanni áður en hann fór inn. Á 37 mín fengum við víti eftir að Rúnar sendi fyrir markið og boltinn fór í hönd varnarmanns Bjarnarins. Binni Á skoraði örugglega úr vítinu. Nik skoraði svo 2 mörk áður en flautað var til hálfleiks og voru þau mjög keimlík. Bæði með flottu skoti í vinstra hornið frá ca vítateig.

Staðan 5-0 í hálfleik og lítið sem benti til að þetta yrði annað en stórsigur Hugins. En Bjarnarmenn komu sterkir til leiks í seinni hálfleik og minnkuðu muninn á 56 mín eftir flotta sendingu innfyrir vörn okkar manna þar sem sóknarmaður þeirra vippaði yfir Atla í markinu. Bæði lið fengu nokkur færi til að skora og vildu Bjarnarmenn jafnvel fá eitt víti en eftir að hafa séð það á myndbandi var það hárrétt hjá dómaranum að gefa það ekki þar sem Gauti hafði unnið boltann löglega. Við náðum loks að bæta við 2 mörkum. Á 67 mín skoraði Marko eftir stórglæsilegan sprett frá Ingó upp allan völlinn og svo var það markamaskínan Raggi Konn sem þefaði upp frákast, eftir skot frá Gunna, og potaði boltanum yfir línuna á 88 mín.
Heilt yfir var þetta mjög sanngjarn sigur og vorum við að spila glimrandi vel og þá sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem við vorum mjög góðir bæði varnar og sóknarlega. Gáfum kannski aðeins eftir í seinnihálfleik en það er kannski eðlilegt að slíkt gerist þegar lið eru komin með góða forustu… En kannski ekki ásættanlegt.

Flokkar:Fréttir, Leikir

Æfingaleikur 3.júlí við Hött

Huginn fór á Vilhjálmsvöll til að spila æfingaleik við Hattarmenn. Í síðasta mánuði kom Höttur á Seyðisfjörð og lauk þeim leik með 5-2 sigri Hattar. Úrslitin urðu þau sömu í gær. Staðan var þó 2-1 fyrir Hugin í hálfleik og allt fram að 60.mínútu en þá jafnaði Höttur og þeir sigldu fram úr upp úr því. Má því segja að Hattarar hafi tekið þetta á forminu. Mörk Hugins skoruðu Marteinn Gauti og Brynjar Árna, sem skoraði með glæsilegum hætti beint úr aukaspyrnu.

Þrátt fyrir tap var þetta ágætis leikur hjá Huginn og í raun ekki slæmt að hafa yfirhöndina í 60 mínútur gegn liði sem er tveim deildum ofar.

Næsti leikur Hugins er heimaleikur næsta sunnudag, en þá kemur Björninn úr Grafarvogi í heimsókn.

Flokkar:Leikir

Björninn 0 – 5 Huginn

Jón H. Guðmundsson skrifar.

Laugardaginn 30. júní lék Huginn við Björninn á gervigrasvellinum við Egilshöll. Veðrið var frábært, en áhorfendur fáir. Lið Hugins var svona skipað:

Atli

Magnús    Kristján  Nik   Marko

Rúnar      Brynjar      Friðjón

Ingólfur     Birgir     Marteinn 

Huginn hafði töluverða yfirburði í leiknum og náði að yfirspila Björninn á löngum köflum. Fyrsta markið skoraði Nik eftir fallegt spil. Síðan fór Ingó upp kantinn og lagði boltann fyrir Rúnar sem skoraði annað markið. Friðjón bætti 3ja markinu við fyrir leikhlé. Magnús meiddist í fyrri hálfleik og var honum skipt útaf fyrir Matthew Tanner nýjan leikmann Hugins.

Í seinni hálfleik héldu yfirburðir Hugins áfram og hefði sigur okkar manna getað orðið enn stærri en 5-0. En mörkin í seinni komu frá Bigga og sjálfsmark. 
Varamenn sem komu inn í seinni voru: Ívar, Gauti, Stefán og Geisli. 
Niðurstaðan var góður sigur Hugins í vel spiluðum leik.

Flokkar:Leikir

KH 2 – 4 Huginn

4-2 útisigur varð útkoman í leiknum á gervigrasinu við Hlíðarenda á laugardag.

Það var sól og blíða í Reykjavík rétt eins og á Seyðisfirði þegar við heimsóttum KH. Áhorfendur voru um 60 talsins en þar af hefði verið hægt að telja áhangendur Hlíðarendaliðsins á fingrum annarrar handar.

Brynjar Skúlason stillti liðinu svona upp:

Atli

Jörgen    Kristján     Ívar    Gauti

Friðjón     Nik    Brynjar Á

Ingó          Biggi          Marko

Bekkur: Rúnar, Ingvi, Marteinn, Benni, Maggi.

Við hófum leikinn af krafti og náðum stöku sinnum upp góðu spili. Fljótlega náðum við forystunni með marki frá Marko Nikolic sem var staddur vinstra megin í teignum þegar hann skaut í markhornið fjær. Þegar líða tók á leikinn kom í ljós eitthvað óöryggi í varnarleiknum og þó það glitti í það á köflum, var minna um stutta spilið sem hefur einkennt spil liðsins í sumar. KH menn nýttu sér þetta og tókst að jafna og komast yfir áður en fyrri hálfleik lauk. Staðan var 2-1 í hálfleik heimamönnum í vil.

Brynjar þjálfari gerði tvær skiptingar í hálfleik. Rúnar kom inná fyrir Ívar og tók sér stöðu á miðjunni en Nik tók stöðu miðvarðar við hlið Kristjáns. Þá kom Marteinn inná fyrir Gauta og fór á vinstri kantinn en Marko tók stöðu vinstri bakvarðar.

Eftir slakan fyrri hálfleik var sá síðari allt annar. Spil Hugins varð betra, minna var um langa bolta fram og menn voru ákveðnari og öruggari í aðgerðum. Það tók liðið 8 mínútur að snúa leiknum sér í hag. Á 52.mínútu jafnaði Marko leikinn. Boltinn var færður frá hægri kanti yfir á vinstri þar sem Marko fékk boltann utan teigs, lagði hann fyrir sig og setti hann í netið við fjærstöng. Aðeins mínútu síðar var staðan orðin 2-3. Eftir hornspyrnu komst Nik í boltann í teignum og kom honum í markið. Huginn hélt áfram að spila vel, héldu boltanum og sóttu þegar tækifæri gáfust til. Á endanum kom fjórða markið sem gerði út um leikinn. Biggi pressaði varnarmenn KH við vítateiginn og var togaður niður af einum þeirra. Víti dæmt og Brynjar Árna skoraði örugglega úr því.

Heilt yfir verðskuldaður sigur Hugins eftir öllu betri síðari hálfleik.

Næsti leikur Hugins er gegn Birninum næsta laugardag á gervigrasinu við Fjölnisvöll. Leikurinn er upphaflega settur á kl.14 en gæti verið flýtt til 13.30. Fylgist með á ksi.is.

Flokkar:Leikir

KH – Huginn laugardaginn 23.júní

Huginn spilar við KH á Hlíðarenda kl.14.00 þann 23.júní.

Af því tilefni ætla stuðningsmenn liðsins á suð-vesturhorninu að hittast í Keiluhöllinni klukkan 13, hita upp fyrir leikinn og mynda góða stemningu áður en haldið er á völlinn.

Þeir sem ekki komast á leikinn þurfa þó ekki að örvænta, því leiknum verður lýst beint í gegnum netið. 
Beina lýsingu má nálgast hér: http://www.fhingar.net/varpid 

Búið ykkur því undir leikinn, hvar sem þið eruð.  

Flokkar:Leikir

Huginn 4-2 Álftanes

Það var fínt veður í firðinum þegar Huginn sigraði Álftanes daginn fyrir þjóðhátíðardaginn.

Lið Hugins leit svona út:

Atli

Jörgen    Kristján    Ívar     Gauti

 Friðjón     Nik     Rúnar

Ingó      Biggi      Marko

Bekkur: Brynjar Á, Geisli, Binni S, Marteinn, Benni.

Huginsmenn byrjuðu leikinn betur náðu forystunni eftir 10 mínútna leik. Þá var víti dæmt þegar brotið var á Nik, Ingó fór á punktinn og skoraði. Eftir um hálftíma leik skallaði Kristján boltann í netið og staðan orðin 2-0. Þá slökknaði á Huginsmönnum og Álftnesingar gengu á lagið. Fyrst minnkuðu þeir muninn þegar sóknarmaður þeirra komst inn í sendingu til baka á Atla og svo skoruðu þeir eftir aukaspyrnu sem barst inn í teiginn. Síðar stöðvaði dómarinn leikinn vegna meiðsla í liði gestanna, en þeir voru ekki sáttir þar sem boltinn skoppaði yfir Atla og rúllaði í netið. Því miður fyrir þá hafði leikurinn þegar verið stöðvaður.

Staðan var 2-2 eftir fjörugan fyrri hálfleik.

Í síðari hálfleik mættu Huginsmenn ákveðnir til leiks eftir slakan enda á þeim fyrri. Á 55.mínútu endurheimtum við forystuna. Eftir gott spil á miðjunni fékk Biggi boltann utan teigs og ákvað að skjóta. Boltinn átti viðkomu í varnarmanni Álftaness og fór af honum í markhornið fjær. Staðan var 3-2 allt þar til undir lok leiksins. Þá geystist Marteinn upp völlinn og brotið var á honum. Brynjar Árnason tók aukaspyrnuna sem fór í gegnum vítateiginn og framhjá markverðinum í netið. Staðan orðin 4-2 og úrslitin ráðin.

Heilt yfir sterkur sigur á fínu liði Álftaness. Huginn situr á toppi riðilsins með þriggja stiga forskot á Leikni sem eru í öðru sæti, en næstu helgi eigum við útileik gegn KH á Hlíðarenda.

Flokkar:Leikir

Hin hliðin – Atli Gunnar Guðmundsson

Atli Gunnar er að spila sitt fyrsta tímabil í marki Hugins. Hann fékk ekki á sig mark í síðasta leik og fór heim með svokallað hreint lak. Hér er hin hliðin á Atla Gunnari.

Fullt nafn:  Atli Gunnar Guðmundsson

Gælunafn sem þú þolir ekki:  ég á ekkert gælunafn

Aldur: 18 ára

Giftur / sambúð: Hvorugt

Börn: Enginn

Kvöldmatur í gær: Lasagnia

Uppáhalds matsölustaður: Salatbarinn í Skeifuni er mjög ofarlega. Alveg eins og maður getur í sig látið af góðum mat!

Hvernig bíl áttu: Á ekki bíl

Besti sjónvarpsþáttur:  Modern Family, The Mentalist og Suits

Uppáhalds hljómsveit:  Mumford and Sons og Kasabian

Uppáhalds skemmtistaður: Tjaaa ég á nú engann uppáhalds

Frægasti vinur þinn á Facebook:  Gunnar Einarsson

Hvernig hljómar síðasta sms sem þú fékkst:  “Hefuru einhvertímann legið með kind?” frá Birgi Hákoni Jóhannssyni

Hefurðu tekið dýfu innan teigs:  Hef aldrei látið reyna á það

Hvaða mark sem þú hefur skorað er í uppáhaldi, hvers vegna? Þar sem ég er markmaður þá á ég nú ekki mörg mörk á reikningnum en ég átti hins vegar ágæts tilraun  þegar að Huginn var að keppa á móti Fjarðabyggð í æfingaleik í Fjarðarbyggðahöllinni og ég kom inná útá hægri kant. Ég var búinn að vera inná í ca. 10 mín þegar ég átti þessa mögnuðu fyrirgjöf sem endaði í slánni. Srdjan Rajkovic átti engann veginn von á þessu og hefði ekki átt möguleika ef boltinn hefði verið 5 cm neðar.

Hvaða liði myndir þú aldrei spila með:  Einherja, þó að ég hafi einu sinni spilað með þeim í 4 flokk þar sem ég og rúnar urðum Íslandsmeistarar.

Besti leikmaður sem þú hefur mætt: Ekki Birgir Hákon Jóhannsson

Mest óþolandi leikmaður sem þú hefur mætt:  Á vellinum er það líklega Almar Daði Jónsson, þó hann sé reyndar besta skinn utan vallar og ágætis samherji.

Sætasti sigurinn: 4-3 sigur á móti Einherja 25 maí sl.

Áttu þér einhverja hjátrú varðandi knattspyrnuiðkun?: Nei svosem ekki.

Mestu vonbrigðin: Nýleg vonbrigði eru líklega þegar Leiknir Fásk. fékk gefna vítaspyrnu í blálokinn á móti okkur í fyrsta leik á Íslandsmótinu.

Uppáhalds lið í enska: Liverpool

Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði í þitt lið: TG9 þó gamall sé.

Fyrsta verk ef þú yrðir formaður KSÍ: Láta útsendara frá Landsliðunum koma meira útá land og skoða strákana sem eru í liðum þar.

 

Fyrsta verk ef þú værir formaður Hugins: Laga Garðarsvegsvöll!
Fallegasti knattspyrnumaðurinn í deildinni: Geisli Hreins!

Fallegasta knattspyrnukonan:  Sara Björk

Besti íþróttalýsandinn: Gummi Ben eða Valtýr Björn

Hver er mesti höstlerinn í liðinu: Rúnar Freyr Þórhallsson

Uppáhalds staður á Íslandi:  710 SFK

Uppáhalds staður á Seyðisfirði: Botnahlíð 27

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik:  ég man nú ekkert eins og er en það var nú frekar fyndið þegar Gauti Skúlason skoraði þetta frábæra mark sem átti alveg örugglega að vera fyrirgjöf en eftir að boltinn hafi skoppað á þúfu á vellinum og hann hitti hann svo vel að boltinn steinlá í netinu! En það fyndna var hvernig hann brást við því 😀

Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki:  Held að það hafi verið í fyrrasumar þegar ég kom inná fyrir Jón Kolbeinn Guðjóns í næstseinasta leik Íslandsmótsins.

Besta við að æfa fótbolta: Félagsskapurinn, Hreyfingin og Tilfinninginn þegar maður vinnur leik!

Hvenær vaknarðu á daginn:  Á virkum dögum kl. 6.20

Fyrir utan knattspyrnu, fylgist þú með öðrum íþróttum:  Já ég fylgist eiginlega með flest öllum íþróttum nema kannski hafnabolta og krikketi.

Hvenær borgaðir þú þig síðast inn á knattspyrnuleik:  Þróttur – Höttur í 1. Deildinni núna í byrjun maí.

Í hvernig fótboltaskóm spilar þú:  2500 króna AdiNova, bláum, og Adidas World Cup.

Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla:  ég var nú svosem ekkert lélegur í neinu en ég nennti aldrei að læra í ensku!

Vandræðalegasta augnablik:  ég man nú því miður ekki eftir neinu

Viltu deila með okkur einhverju leyndarmáli? : Rúnar Freyr Þórhallsson fór einu sinni í sleik við 11 mismunandi stelpur á sama kvöldinu.

Huginn 5-0 Augnablik (Highlights)

Flokkar:Leikir

Huginn – Augnablik

Í þriðja heimaleiknum í röð tók Huginn á móti Augnabliki úr Kópavogeeee. Þeir grænu höfðu spilað við Einherja daginn áður og þurftu að lúta í gras á frímerkinu; 3-1.

Jörgen var kominn aftur í liðið eftir meiðsli og tók stöðu hægri bakvarðar. Kristján kom einnig inn í liðið og tók stöðu miðvarðar. Nik færði sig á miðjuna og tók þar stöðu Rúnars, sem tók út leikbann.
Liðið leit svona út:

Atli

Jörgen   Kristján    Ívar   Gauti

Friðjón      Nik     Brynjar Á

Ingó    Biggi   Marko

Bekkur: Geisli, Marteinn, Stefán, Binni S, Benni.

Huginn byrjaði leikinn af krafti og pressuðu gestina stíft þegar þeir voru með boltann. Liðin þreifuðu mikið fyrir sér í fyrri hálfleik og varnir liðanna gáfu ekki mikil færi á sér.

Marko taldi sig hafa skorað þegar boltinn barst til hans í markteig, en flagg aðstoðardómarans var uppi og markið fékk því ekki að standa. Þá skallaði Biggi fyrirsendingu Marko rétt yfir.
Hættulegasta færi Augnabliks var aukaspyrna sem Atli varði vel í horn.

Það var þó ekki markalaust í hálfleik. Eftir nokkuð stífa sókn fékk Brynjar Árna boltann rétt utan teigs. Hann sendi boltann inn fyrir á Friðjón sem stóð einn og óvaldaður og setti boltann í netið.

Staðan því orðin 1-0 þegar dómarinn flautaði til hálfleiks. Sólin lét vel að vallargestum, í raun svo vel að nokkrir þeirra slógu upp í lautarferð í brekkunni aftan við vallarstúkuna. Þar lét Þorvaldur fyrrum bæjarstóri sig ekki vanta og spókaði sig ánægður.

Fljótlega í síðari hálfleik var forysta Hugins orðin tvö mörk. Annað markið var keimlíkt því fyrsta, en Brynjar setti boltann þá snyrtilega yfir vörn Augnabliks og Friðjón kláraði færði lystilega vel. 2-0!

Marko bætti svo við þriðja marki Hugins beint úr aukaspyrnu, glæsileg spyrna hjá Marko sem var líflegur í dag, bæði á kantinum sem og í bakvarðarstöðunni sem hann tók þegar Marteinn kom inná fyrir Jörgen.

Fjórða mark Hugins var af dýrari gerðinni. Áhorfendur voru farnir að kalla eftir fleiri mörkum þegar Gauti Skúlason, vinstri bak-(og bað)vörður Hugins fékk boltann. Á þessum tímapunkti hafði markvörður Augnabliks varið frábæra aukaspyrnu Nik og áhorfendur voru orðnir nokkuð örvæntingarfullir eftir hinu afar mikilvæga „fjórða“ marki eins og frægt er. Við getum auðvitað einungis velt því fyrir okkur hvað hefur farið fram í huga Gauta á þeirri stundu sem hann rakti boltann frá miðlínu áleiðis í átt að marki andstæðingsins. Hvort hróp og köll stuðningsmanna hans hafi ómað í huga hans, skal ósagt látið. Það sem við vitum er það að Gauti skaut að marki. Langt utan af velli, langt utan af kanti. Og Gauti skaut hátt. En inn fór boltinn. 4-0 og Gauti var hógværðin uppmáluð í fagnaðarlátunum.

Fimmta markið kom svo í lok leiksins. Boltinn barst þá eftir hornspyrnu til Bigga á fjærstöng sem skoraði af öryggi.

Huginn hefur byrjað sumarið vel, og eftir 3 sigra á heimavelli í röð er Huginn með 10 stig á toppi síns riðils í deildinni. En, þetta er einmitt bara byrjun (4 leikir búnir, 10 eftir) og það er sko nóg eftir. Stuðningsmenn eru hvattir til að halda áfram að mæta á leiki liðsins og styðja vel við bakið á liðinu sínu.

Fjórði heimaleikurinn í röð hjá liðinu er þann 16.júní gegn Álftanesi áður en liðið spilar tvær helgar í röð á höfuðborgarsvæðinu. Svona lítur leikjaprogrammið út hjá liðinu á næstunni:

  • 16.júní: Huginn – Álftanes á Seyðisfjarðarvelli (14.00)
  • 23.júní: KH – Huginn á Hlíðarenda (14.00)
  • 30.júní: Björninn – Huginn á Fjölnisvelli (gervigrasi) (14.00)
Flokkar:Leikir